Valfrjáls þátttökugjöld

Við erum meðvitaðar um að ekki stendur öllum þátttakendum jafnt til boða að sækja rokkbúðirnar sökum fjárhags, félagslegrar stöðu eða annarra breyta. Þess vegna leggja Stelpur rokka! sérstakan metnað í að vera eitt af fáum verkefnum á Íslandi sem vísar engum þátttakanda frá vegna fjárskorts. Það þýðir að það er viðmiðunarþátttökugjald í búðirnar en þátttakendur velja sjálfir hvaða upphæð þeir greiða og ekki er nauðsynlegt að greiða neitt. Sú stefna hefur gefið mjög góða raun frá upphafi. Okkar reynsla er að frí eða niðurgreidd pláss fari til þeirra stúlkna (cís og trans), trans stráka, kynsegin og intersex einstaklinga sem mest þurfa á því að halda og eru í minnihluta þátttakenda í rokkbúðunum. Efnaminni þátttakendur, LGBT þátttakendur og þátttakendur með annað móðurmál en íslensku hafa forgang í frí pláss en hingað til höfum við getað boðið öllum sem á þurfa að halda frí pláss. 

Hugmyndafræðin okkar

Enn er mikið verk að vinna til að leiðrétta kynjahalla í íslensku tónlistarlífi. Staðalímyndir í rokk og popp myndböndum og tímaritum sýna konur fyrst og fremst sem óvirk kynferðisleg viðföng hins karllæga augnaráðs en ekki sem skapandi og sjálfstæða gerendur. Hlutfall kvenna á tónlistarhátíðum á borð við Iceland Airwaves, sem skráðra höfunda í STEF, í stjórnum tónlistrartengdra stofnanna og fyrirtækja og almennt sem sýnilegra tónlistarmanna á Íslandi, er afar lágt. Stelpur (cís og trans), trans strákar, kynsegin og intersex krakkar eru ólíklegri en cís strákar til þess að byrja að semja og spila sína eigin tónlist á unglingsárunum og stofna hljómsveitir. Margir samverkandi samfélagslegir þættir gera það að verkum að þessir einstaklingar eru líklegri til að skorta sjálfstraust til að koma fram á sviði, taka sér rými og vera með hávaða. Stelpur rokka! vilja breyta þessari kynjuðu menningu.

Hugmyndafræði Stelpur rokka! snýst um að skapa öruggt rými þar sem þátttakendum er gefið tækifæri til þess að spegla sig og sína hæfileika í öflugum fyrirmyndum. Rokkbúðirnar eru vettvangur til þess að að prófa sig áfram, gera mistök, öskra og pönkast. Þátttakendur eru hvattir til þess að líta á sig sem virkt og skapandi tónlistarfólk. Þeim líður vel í þessu umhverfi, þeir kynnast nýjum hliðum á sjálfum sér og þeir mynda mikilvæg tengsl við aðra sem hafa áhuga á að spila og semja tónlist. Við teljum okkur vera fyrsta varðan í átt að tónlistariðkun þátttakenda en fæstir hafa spilað á hljóðfæri áður eða verið í hljómsveit.

Jafnréttisfræðsla og jafnréttisstarf er einnig hornsteinninn í starfi Stelpur rokka! Í rokkbúðunum og rokksmiðjunum læra þátttakendur um jafnréttisbaráttu margvíslegra jaðarhópa í samfélaginu. Stelpur rokka! starfa með öðrum jafnréttissamtökum að margvíslegum verkefnum. Við trúum á samtakamátt til breytinga og stöndum með öllum jaðarsettum hópum og rétti þeirra til jafnar þátttöku í samfélaginu. 


Stefna Stelpur rokka! 

Rokksumarbúðir Stelpur rokka! standa öllum stelpum (cís og trans), trans strákum, kynsegin krökkum og intersex krökkum opnar, óháð uppruna, fjárhag, litarhafti, líkamsgerð, ætterni, heilsufari, kynhneigð, túlkun kyngervis, trú, getu, móðurmáli, fötlun eða öðrum breytum.